Eignasafn
Regins

Breyting á eignasafninu á árinu

 

Eignasafn Regins hefur þróast mikið frá skráningu félagsins 2012 ef litið er til stærðar, dreifingar, og gæða. Virði eignasafnsins hefur nánast fjórfaldast á síðustu fimm árum, eða frá skráningu félagsins. Vöxturinn hefur að mestu verið drifinn áfram með fjárfestingum í arðbærum fasteignum og fasteignafélögum. Árið 2017 einkenndist þó að miklu leyti af innri vexti, þ.e. fjárfestingum og endurskipulagningu eigna félagsins. Fjárfesting í eignum félagsins var nánast til jafns við fjárfestingu í keyptum eignum eða eignasöfnum. Virði eignasafns Regins hækkaði um rúma 14 milljarða króna á árinu 2017. Matsbreyting var alls tæpir 3 milljarðar króna og fjárfesting um 12 milljarðar króna. Seldar voru eignir fyrir um 1 milljarð króna.

Á árinu 2017 keypti Reginn 55% hlut í félaginu FM-hús ehf. sem á og rekur m.a. skólabyggingar í Hafnarfirði og Garðabæ. Í gegnum FM-hús ehf. keypti Reginn einnig Reyki fasteignafélag ehf. á Akureyri ásamt annarri eign á Akureyri. Þessar fjárfestingar ásamt öðrum minni telja um 6,5 milljarða króna.

Fjárfestingar í eignum Regins hafa aldrei verið meiri en árið 2017, alls 5,8 milljarðar króna. Vó þar þyngst megin þorri endurskipulagningar Smáralindar og standsetning leigurýma ZARA og H&M í vesturenda Smáralindar auk endurnýjunar innganga og fleira. Framkvæmdir við nýtt alhliða íþróttahús við Egilshöll hófust á árinu og stefnt er að því að það verði tekið í notkun í ágúst á þessu ári.

Matsbreyting - umfjöllun og aðferðir

  • Fasteignasafnið er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla og er stuðst við sjóðstreymisgreiningu eins og tíðkast í fasteignafélögum.
  • Tekjur félagsins eru bundnar í langtímaleigusamningum sem eru verðtryggðir og því breytist tekju- og sjóðstreymi í samræmi við breytingar á vísitölu.
  • Ávöxtunarkrafa eiginfjár og vextir af lánsfjármagni eru uppfærðir miðað við stöðu á markaði. Matsbreyting er því eðlileg færsla á verðmætaaukningu fjárfestingareigna og er stærsti hluti langtímaskulda félagsins verðtryggður.
  • Við útreikning á matsbreytingu er stuðst við líkön og verklagsreglur sem hafa verið staðfestar af óháðum ráðgjafa. Endurskoðendur félagsins og Endurskoðunarnefnd hafa fjallað um og yfirfarið mat á gangvirði.

Virði fasteigna eftir flokkum

Fjárfestingarstefna Regins tekur bæði tillit til áhættu og viðskiptatækifæra. Unnið hefur verið eftir skýrri fjárfestingarstefnu og með henni hefur vægi atvinnuflokka eins og verslunar og þjónustu lækkað frá því að vera um helmingur af safninu fyrir um fimm árum.

Vægi verslunar og þjónustu er nú tæplega 35% af virði eignasafns Regins. Skrifstofu og atvinnuhúsnæði er nú rúmlega 28%. Samhliða fjárfestingu í nýjum eignaflokki var breyting gerð á eignaflokkun Regins. Skólahúsnæði hefur verið fellt undir flokkinn, Íþrótta-, mennta- og afþreyingarhúsnæði. Helstu fjárfestingar félagsins voru í þeim flokki og því vex hann milli ára og er nú rúmlega 15% af eignasafni Regins.

Stærð atvinnuflokka

Fermetrafjöldi stærstu atvinnuflokkanna, þ.e. verslun og þjónusta annarsvegar og skrifstofuhúsnæði hins vegar eru hver um sig þriðjungur af eignasafninu. Eru þetta megin stólpar eignasafnsins. Þegar litið er til fermetra eru hótel og ferðaiðnaður enn mjög lágt hlutfall af eignasafni Regins en eins og myndin hér að ofan sýndi er eðli eignanna þannig að virði þeirra er meira en tvöfalt hærra á fermeter en að jafnaði í öðrum flokkum.