Verkefni ársins
2017

Smáralind

 

Á liðnu ári var unnið að umfangsmiklum verkefnum tengdum endurskipulagningu í Smáralind. Í vesturenda var akkerisverslun Debenhams lokað og opnuð glæsileg flaggskipsverslun H&M ásamt því að allur vesturendi Smáralindar fékk allsherjar upplyftingu með glæsilegum nýjum inngangi og uppfærðri göngugötu. Samhliða opnun á H&M var flæði viðskiptavina um verslunarmiðstöðina stórbætt með tilfærslu á rúllustigum, nýrri brú og nýjum rúllustigum. Strax í kjölfarið á opnun H&M opnaði ZARA flaggskipsverslun sína á tveimur hæðum í Smáralind og varð um leið eina verslun ZARA á Íslandi. Í austurenda Smáralindar opnaði hin þekkta O‘Learys veitingahúsakeðja sinn fyrsta veitingastað á Íslandi. Á árinu var einnig sett upp auglýsinga- og vegvísunarkerfi á göngugötu Smáralindar.

Tekist hefur að landa þekktum erlendum keðjum til landsins í bland við sterka innlenda aðila og skapa sterka heild í nýrri Smáralind til framtíðar. Einn veigamesti þátturinn í endurskipulagningu Smáralindar var að tryggja sterkan og öflugan akkeris leigutaka í vesturenda Smáralindar sem myndi draga að viðskiptavini. Það hefur svo sannarlega tekist þar sem gríðarleg aukning í gestafjölda hefur fylgt þeim miklu breytingum sem hafa átt sér stað í Smáralind. Á árinu 2018 mun þriðji fasi endurskipulagningar Smáralindar halda áfram með ýmsum stórum framkvæmdum s.s. stækkun á Smárabíó, nýju bílastæðahúsi, bættu umferðarflæði og uppfærslu á suðausturgangi og inngangi. Markmið Smáralindar er einnig að auka hlutfall veitingastaða í Smáralind í samræmi við það sem er að gerast í nágrannalöndunum, auk þess að bæta í flóru alþjóðlegra verslana.

Með tilkomu Íslandsbanka og annarra leigutaka í Norðurturni Smáralindar hefur gestafjöldi aukist til muna í alla þjónustu og verslun í húsinu. Á næstu misserum mun uppbygging 620 íbúða í Smárabyggð og uppbygging á Glaðheimasvæðinu einnig styrkja verslun og þjónustu í Smáralind til framtíðar og festa svæðið í kringum Smáralind betur í sessi sem miðpunkt höfuðborgarinnar m.t.t. atvinnu, verslunar, þjónustu og samgangna.

Hafnartorg

Byggingaframkvæmdir við Hafnartorg, nýtt verslana- og þjónusturými í miðborg Reykjavíkur ganga vel og samkvæmt áætlun. Reginn hefur þegar fengið fyrsta hluta verkefnisins afhentan til að hefja framkvæmdir inni í leigurýmunum en gert er ráð fyrir því að starfsemi hefjist haustið 2018. Nú í byrjun febrúar 2018 hefur 68% leigurýma verið ráðstafað.

Á árinu 2017 náðust einnig samningar á milli Regins og Austurhafnar ehf. um kaup Regins á öllum verslunar- og þjónusturýmum á reit 5b við Austurbakka. Svæði sem er hafnar megin við Hafnartorg. Áætlað er að Reginn fái þau rými afhent um mitt ár 2019.

Smárabyggð

 

Í júní 2017 var skrifað undir samkomulag um gerð kaupsamnings á milli Regins og GAMMA Capital Management hf., um kaup GAMMA á öllum hlut Regins í lóðum 03 og 04 sunnan Smáralindar í hverfinu sem hefur gengið undir nafninu Smárabyggð. Byggingarmagn á lóðunum tveimur, sem Reginn á helmingshlut í, er alls 30.622 „brúttó“ íbúðarfermetrar. Söluverð á hlut Regins í félaginu er 1.236 m.kr.

Á síðustu árum hefur Reginn, í samstarfi við Kópavogsbæ og aðra eigendur að Smárabyggðarsvæðinu, unnið að því að endurskipuleggja nánasta umhverfi sunnan Smáralindar. Tilgangur þess hefur verið að styrkja Smáralind og svæðið í heild sem verslunar- og þjónustusvæði sem og koma þar fyrir vönduðu og glæsilegu íbúðarsvæði. Það er mat félagsins að veruleg jákvæð áhrif verði til frambúðar með tilkomu nýrrar íbúðabyggðar í nágrenni verslunarmiðstöðvarinnar.

Egilshöll

 Í desember síðastliðnum bættist í flóru heilsutengdrar starfssemi Egilshallar. Hæfi endurhæfingarstöð opnaði glæsilega aðstöðu þar sem lögð er áhersla á þverfaglega greiningu og meðferð frá læknum, sálfræðingum og sjúkraþjálfurum.
Keiluhöllin í Egilshöll hefur aldrei verið vinsælli en árið 2017 þegar tæplega 170 þúsund gestir spiluðu keilu í Keiluhöllinni eða um 460 manns á dag. Í vor verða gerðar miklar breytingar á keilusalnum sjálfum sem mun bæta aðstöðu og aðgengi í Keiluhöllinni til muna.

Á árinu hófust framkvæmdir við byggingu á nýju alhliða íþróttahúsi sem mun rúma tvo handboltavelli í fullri stærð ásamt annarri íþróttastarfsemi. Íþróttahúsið verður tekið í notkun í ágúst 2018.

Gestafjöldi í Egilshöll hefur aukist verulega á milli ára og var gestafjöldi á árinu 2017 um 1,3 milljónir en það er 11% aukning á gestafjölda frá árinu 2016 og 29% aukning frá árinu 2015. Gera má ráð fyrir að með tilkomu nýs íþróttahúss og endurhæfingarstöðvar muni fjöldi gesta aukast enn frekar sem skapar sóknarfæri til framtíðar.

Áfram verður unnið að endurskoðun á heildarskipulagi Egilshallar með öllum hagsmunaaðilum á svæðinu, þ.e. Reykjavíkurborg og Fjölni, auk Regins. Mikill ónýttur byggingaréttur er enn til staðar á lóðinni.